Sveitarfélagið Hornafjörður – Heilsueflandi samfélag

0
1205

Mig langar að skrifa hér nokkrar línur um Heilsueflandi samfélag því ég held að margir telji að Heilsueflandi samfélag sé eitthvað sem snýr eingöngu að hreyfingu og íþróttum. En það er ekki alls kostar rétt. Heilsueflandi samfélag snýst að sjálfsögðu að einhverjum hluta um hreyfingu og þær íþróttir sem íbúar sveitarfélagsins stunda en jafnfætis því er t.d. almennt heilbrigði og velferð. Hugtakið velferð skiptist í þrjá megin þætti sem eru:

  • Huglæg velferð
  • Efnisleg velferð
  • Tengsl eða félagsleg velferð

Huglæg velferð snýr t.a.m. að hugmyndum okkar um sjálfið og eigin persónuleika um vonir, ótta og væntingar ásamt trausti og trúnaði.
Efnisleg velferð snýr að þáttum eins og tekjum, atvinnuþátttöku og athöfnum sem auka lífslíkur einnig að menntun, líkamlegri heilsu og aðgengi að þjónustu.
Félagsleg velferð snýr svo að persónulegu tengslaneti, áhrifum og félagslegu öryggi.
Við árangursríka innleiðingu Heilsueflandi samfélags má vænta þess að íbúar bæti heilsu sína og lífsgæði. Þar er stefnt að því að auka ánægju, hamingju og heilsuhreysti sem allra flestra íbúa með því að öðlast aukna heilsumeðvitund, heilsulæsi, afköst og árangur. Fyrir vikið ætti samfélagið í heild að verða enn eftirsóknarverðara, hagkvæmara, öruggara, sjálfbærara og skilvirkara.
Hafa þarf þó í huga að góðir hlutir gerast hægt og það að stuðla að raunverulegum breytingum í samfélögum krefst bæði tíma, samstarfs og samstöðu sem allra flestra.
Þeir þættir sem geta haft áhrif á heilsuhegðun fólks er m.a. samgöngur og aðgengi að byggingum og þjónustu, heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, forvarnir og öryggismál, aðbúnaður eldri borgara, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf, hönnun hverfa og bygginga og almenn skipulagsmál.
Nálgunin á vegi heilsueflingar getur mótast eftir mismunandi markmiðum, áherslum og áhuga einstaklinga, stjórnsýslunnar og samfélaginu í heild.
Humarhátíð með þátttöku samfélagsins, Hafnarhittingur með þátttöku samfélagsins, opin græn svæði þar sem einstaklingar eða hópar geta komið saman og átt saman gæðastund eða farið í leiki, gott aðgengi að hollum mat og drykk, leikvellir, göngu- og hjólastígar, áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvarnir, ungmennaþing, öruggt og heilsusamlegt umhverfi fyrir alla íbúa, íþróttir af öllum toga, fjölbreytt lækna- og sérfræðingaþjónusta :
Öll þessi upptalning á sér einn samnefnara =
Heilsueflandi samfélag

Herdís I. Waage
Verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags á Hornafirði