Sindrastelpur á landsliðsúrtöku fyrir EM 2018

0
4027

Síðastliðna helgi 14-15. október fóru fram æfingar í landsliðsúrtöku í hópfimleikum fyrir EM 2018 sem haldið verður í Portúgal. Í unglingaflokki voru stelpur og strákar fædd 2001-2005. Hópnum var skipt niður á laugardag þar sem æft var í Gerplu og á sunnudag þar sem æft var í Stjörnunni. Á æfingunum voru um 12 strákar og um 100 stelpur. Gaman að segja frá því að að þetta er í fyrsta skipti sem stelpur frá fimleikadeild Sindra fara á landsliðsúrtöku í hópfimleikum. Hildur Margrét Björnsdóttir og Angela Rán Egilsdóttir voru fulltrúar fimleikadeildar Sindra og stóðu þær sig prýðisvel. Angela Rán er það ung að hún er gjaldgeng í unglingaflokki fyrir næsta verkefni EM 2020. Til þess að komast á æfingu þurftu stelpurnar að geta gert lágmarkskröfur á gólfi, trampolíni og stökkgólfi.
Það má einnig til gamans geta að tvær Sindrastelpur sem æfa núna í Gerplu voru einnig á úrtaksæfingum um helgina. Telma Rut Hilmarsdóttir var á unglingaæfingunni og einnig Tinna Marín Sigurðardóttir sem var á úrtaksæfingu hjá kvennaliðinu, þær sem eru fæddar 2000 og eldri.
Í Portúgal verður bæði lið í stúlkna flokki og blönduðum flokki unglinga. Það er einnig gaman að segja frá því að Sindri á einn fulltrúa í þjálfarateymi í blönduðum flokki en það er Ragnar Magnús Þorsteinsson en hann er einn af þremur í þjálfarateymi í blönduðum flokki.
Það má með sanni segja að þetta sé ávinningur á því góða fimleikastarfi sem unnið er hér í Hornafirði og við erum afar stolt af okkar fulltrúum en því miður miðað við okkar fimleikaaðstæður hér í Hornafirði þá þurfa stelpur við framhaldsskólaaldur að færa sig um set til að ná lengra. Við vonum svo innilega að aðstöðubreyting verði á næstu misserum hér í Hornafirði, því það getur haft góða kosti fyrir bæjarfélagið samanber fyrir framhaldsskólaaldur þ.e.a.s fjölbreytt íþróttastarf, minna brotthvarf og öflugt lýðheilsustarf.
Einar Smári Þorsteinsson yfirþjálfari
og stjórn fimleikadeildar Sindra