Menningarmiðstöð Hornafjarðar

0
1512

Innan Menningarmiðstöðvarinnar eru sex safneiningar, byggða-, sjóminja-, náttúrugripa-, lista-, bóka og héraðsskjalasafn ásamt rannsóknarsviði sem starfar þvert á einingarnar og innan þessara eininga kennir ýmissa grasa.
Listasafnið heldur 7 sýningar á ári að meðaltali. Í aðalsal Svavarssafns er nú sýningin Speglun og er hún samtal Áslaugar Írisar Katrínar Jónsdóttur og Svavars Guðnasonar listamanna sem bæði hafa unnið að abstrakt list, hvort á sinni öldinni. Á Humarhátíðinni opnar svo sýning á verkum Braga Ársælssonar sem ber heitið Með tónlistina í farteskinu í fremri sal listasafnsins.
Á Humarhátíð opnar héraðsskjalasafnið einnig sýningu sem ber heitið Bergmál hins liðna en sú sýning fjallar um Jónínu Guðbjörgu Jónsdóttur Brunnan og hennar skrif. Jónína hefði orðið 100 ára í ár og því tilefni til að kynna þessa merku konu betur. Jónína var móðir Braga og því gaman að geta sýnt frá verkum þeirra saman í ár.
Tvær sýningar eru að staðaldri hjá byggðasafninu þá annarsvegar Skreiðarskemman og hins vegar Verbúðin.
Á rannsóknarsviði eru skráðar fornminjar. Mikil vinna fer í að þessa rannsóknarvinnu og er það rannsóknarvinnan á bak við verkin sem skilar sér í mun betri gagnagrunn fornminja sveitarfélagsins.
Bókasafnið er mjög öflugt og er þar að finna allt sem hugurinn girnist. Á Humarhátíð mun standa uppi sýning er ber nafnið Þetta vilja börnin sjá og er hún sýning á listaverkum er prýða barnabækur sem gefnar voru út árið 2017.
Barnastarfið í ár fer um víðan völl, ferðirnar eru farnar á þriðjudögum kl. 13:00. Það má með sanni segja að börnin njóta útiverunnar gríðarlega.
Vonandi sjáum við ykkur sem flest á sýningum safnanna í sumar og áfram um ókomin ár.

Eyrún Helga Ævarsdóttir
Forstöðumarður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.