Kæru Hornfirðingar og félagar

0
1091

Á bæjarstjórnarfundi Sveitar­félagsins Hornafjarðar, fimmtu­daginn 10. janúar 2019 fór ég fram á lausn undan störfum mínum sem bæjarfulltrúi.
Árið 2018 er eftirminnilegt fyrir mig. Ég vann að fyrirtækinu mínu Urta Islandica í gömlu sundlauginni og eignaðist mitt fyrsta barn snemma á árinu. Ég ákvað svo að ganga til liðs við metnaðarfulla félaga Sjálfstæðisfélags Austur-Skafta­fellssýslu og bauð mig fram í sveitarstjórnarkosningum í 2. sæti.
Eftir á að hyggja hefði ég betur mátt bíða með að stíga fæti inn í pólitíkina hér á Höfn, meðgangan og móðurhlutverkið tóku meiri orku en ég bjóst við og mörg krefjandi verkefni hafa þurft að bíða í vinnunni minni þar sem bæjarmálin tóku hug minn allan. Sem bæjarráðsmaður í minnihluta upplifði ég á þessum 6 mánuðum sem ég starfaði að að ég hafði ekki bolmagn til að vera það aðhald sem minnihluti þarf að veita gagnvart meirihlutanum.
Ég fann að reynsluleysi mitt í bæjarmálapólitík og ýmis óþekkt innanbúðartengsl höfðu veruleg áhrif á störf mín. Forsendur mála voru að mínu mati ekki alltaf skýrt borin fram og oftar en ekki voru búin til snið í kringum málefni þannig að þeim gat illa verið andmælt.
Það sem kom mér á óvart eftir að ég byrjaði að starfa sem bæjarfulltrúi var að heyra neikvæða umræðu í garð stjórnsýslu sveitarfélagsins. ‘Þetta fólk í bæjarstjórn’ – ‘Þetta fólk’, erum við, fulltrúar sem íbúar kusu til starfa. Ef það er eitthvað sem ég lærði af þessari reynslu þá er það hversu stutt boðleiðin er beint inná borð stjórnsýslunnar, og ég hvet íbúa til að nýta sér það og vera dugleg að senda inn ábendingar og athugasemdir.
Á þessu hálfa ári sem ég starfaði þá lágu ærin verkefni á borði bæjarstjórnar, en mig langar að koma með nokkra punkta um málefni sem ég myndaði mér skoðun á.
Lækkun fasteignaskatts. Þessi gjörningur kom mér á óvart, bæði í aðdraganda kosninga og ekki síst þegar lækkunin var keyrð í gegn. Að sjálfsögðu á sveitarfélagið að finna leiðir til að lækka álögur á íbúa, en að fikta í fasteignaskattinum var að mínu mati ekki rétta leiðin. Lækkun fasteignaskatts í uppgangi getur haft afleiðingar inn í framtíðina. Að mínu mati er núna tími til að vinna í haginn og byggja upp fjármagn í brýn verkefni. Ég hefði frekar viljað að púðrið hefði farið í alvöru vinnu við að skoða aðra kostnaðarliði heimila sveitarfélagsins sem hefði ekki haft í för með sér rót á jöfnunarsjóði, en jöfnunarsjóður úthlutar sveitarfélögum framlag til að jafna mismunandi út­gjaldaþarfir og skatttekjur sveitarfélaga.
Þá ætla ég að vera ófeimin við að segja að eitt af mínum helstu áhyggjuefnum í dag, með fullri virðingu við þá aðila sem að því standa, er áætlað hótel við höfnina. Ég hvet íbúa til þess að keyra niður að Akurey og ímynda sér byggingu á stærð við Nýheima og mynda sér skoðun. En mín skoðun er sú að þar á heima allt önnur starfsemi en sú sem er á teikniborðinu í dag.
Ég vil óska Hlyni Pálmasyni velfarnaðar í áætlunum sínum við Stekkaklett. Ég fagna fjölbreytileika og frumkvöðlastarfi hér á Höfn. Bókanir og athugasemdir sem ég lagði fram varðandi þetta málefni snerist um jafnræði og fordæmi fyrir ráðstöfunum eigna sveitarfélagsins.
Þá vil ég nefna að ég harma stefnu Ice Lagoon á hendur sveitarfélaginu. Þetta mál er einfalt en á sama tíma flókið. Það sem mér þykir erfiðast við það er að hér er verið að ganga beint á eftir einstaklingum en ekki bara sveitarfélaginu. Við sem störfum og höfum starfað í sveitarfélaginu störfum jafnan af heilindum og eftir okkar bestu getu, samvisku og þekkingu. Stærri mál líkt og þetta er ekki mál sem einn maður hefur tekið ákvörðun um, heldur eru ákvarðanir teknar með aðstoð lögfræðinga hverju sinni. Eftir að hafa lesið mig í gegnum þessi 8 ár af deilu þá sé ég ekkert athugavert við aðkomu sveitarfélagsins í þessu máli. Ég hef heyrt ýmsar raddir íbúa um að ‘sveitarfélagið ætti bara að borga’. Þá vil ég minna á að þetta eru okkar skattpeningar sem um ræðir. Því hvet ég okkur öll til að snúa ekki baki við stjórnsýslunni okkar þegar á reynir. Ég vona að þetta mál fari nú að fá sinn farsæla endi og málsaðilar geti snúið sér fram á við.
Að þessu sögðu vil ég taka fram þakklæti mitt til starfsmanna sveitarfélagsins, nýráðins bæjarstjóra og samstarfsmanna innan bæjarráðs og stjórnar fyrir ánægjulegt samstarf. Ég trúi því að þrátt fyrir að við höfum ekki alltaf verið sammála að þá er hagur sveitarfélagsins þeim efst í huga.
Þá vil ég þakka sérstaklega þeim Birni Inga Jónssyni, fyrir að hafa kynnt mig fyrir störfum sveitarfélagsins, Róberti Matthíassyni fyrir að vera mín stoð og stytta og Sæmundi Helgasyni fyrir að hafa tekið mig undir sinn verndarvæng. Án þeirra hefði þessi reynsla ekki orðið eins lærdómsrík.
Að lokum vil ég koma þakklæti til íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Samfélagið okkar er einstakt og ég á stundum ekki til orð yfir hversu vel íbúar tóku mér, gerðu mig að heimamanni og veittu mér þetta tækifæri.
Kærar þakkir fyrir mig, sjáumst í Tebúðinni!
Bestu kveðjur,
Lára

Guðbjörg Lára Sigurðardóttir
Fyrrum bæjarfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar.