Humarhátíð 2019 – hátíðin okkar allra!

0
1312
Hljómsveitin Karpet spilaði fyrir dansi á síðustu hátíð

Nú hefur Humarhátíðarnefnd 2019 formlega tekið til starfa en hana skipa fulltrúar nefndarinnar frá í fyrra með smá afföllum. Stefnum við að góðri hátíð með sama sniði og í fyrra en það er ekki hægt að gera án ykkar, kæru Hornfirðingar. Viljum við helst hafa heimamenn í hverju horni, hvort sem er á sviði, í matsölu, með uppákomur, gæslu, fjáraflanir félagasamtaka eða hvað eina. Okkar von er að dagskráin verði sett saman að mestu af heimafólki enda slógu Hornfirðingar í gegn í fyrra og þökkum við kærlega fyrir þátttökuna.
Allir Hornfirðingar hafa skoðun á hvernig hátíðin á að vera og því er tilvalið að hjálpa til við að gera hana sem glæsilegasta, margar hendur vinna létt verk. Koma með athugasemdir til okkar, stinga upp á atriðum eða koma með atriði sjálf. Fara í geymsluna og finna skemmtilegan búning fyrir gönguna á föstudeginum, smíða kassabíl nú eða elda súpu.
Í Humarhátíðarnefnd 2019 eru Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, Jónína Kristín Ágústsdóttir, Kristín G. Gestsdóttir, Kristín Vala Þrastardóttir og Steinunn Hödd Harðardóttir. Munum við leggja okkur allar fram um að halda jafn flotta hátíð og í fyrra, allt starf okkar er gert með það að markmiði að halda flotta hátíð með Hornfirðingum, fyrir Hornfirðinga, sem við getum öll verið stolt af.
Allir áhugasamir um þátttöku eru hvattir til að hafa samband við nefndarmenn, hægt er að senda facebook skilaboð á Humarhátíðarsíðuna eða tölvupóst á netfangið humarhatidarnefnd@gmail.com

Hér eru nokkrar myndir frá hátíðinni í fyrra