Hornafjörður Heilsueflandi samfélag

0
1329

Vikuna 1. – 9. júní héldum við „Okkar eigin Hreyfiviku“ þar sem ýmsar tegundir hreyfingar voru kynntar. Þann 1. júní var kynning á hlaupaíþróttinni sem Helga Árnadóttir sá um. Veðrið var upp á sitt versta þennan dag, en ein manneskja mætti þó til Helgu og þar sem þetta voru jaxlar þá hlupu þær samt sem áður 4,5 km. Þann 2. júní  var pása og hreyfivikan hélt áfram á mánudeginum 6. júní. Þá ætlaði Matthildur Ásmundardóttir að kynna stafgöngu. Því miður voru allir uppteknir þennan dag og enginn mætti.  7. júní var gönguhugleiðsla – jóga í boði Huldu Laxdal. Strandlengjan var gengin í frekar köldu veðri en 7 manns þar af tvö börn mættu í hressandi göngu. 8. júní var boðið upp á kynningu í strandblaki þar sem blakarinn Róbert Matthíasson kynnti og kenndi byrjunartakta í blakinu. Frekar kalt var í veðri en 3 fullorðnir og 5 börn mættu á svæðið. Á síðasta degi Hreyfivikunnar 9. júní  átti að kynna nýjasta sportið hér á Hornafirði þ.e. Folf. En folf er frisbí golf og er nýbúið að standsetja völl í og við tjaldstæðið. Okkar eini sanni Gulli „FOLF“ Róbertsson ákvað að gefa okkur af tíma sínum og mætti galvaskur á slaginu kl. 16:00 við fyrstu holu/körfu. Hann varð því miður að láta í minni pokann og pakka saman þar sem engir sáu sér fært um að mæta.  Okkar eigin Hreyfivika var eingöngu auglýst á vefmiðlum þ.e. á heimasíðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar www.hornafjordur.is þar sem dagskrá vikunnar var kynnt. Einnig var póstað reglulega á facebooksíðu sveitarfélagsins. Þessi hreyfivika er bara byrjunin á öllu hinu sem koma skal í sambandi við Heilsueflandi samfélag og hvetjum við alla til að fylgjast vel með tilkynningum og fréttum svo við getum öll tekið þátt í viðburðunum. Ég vil að lokum þakka öllum leiðbeinendunum sem gáfu okkur af tíma sínum til að vera með kynningar í „Okkar eigin Hreyfiviku“ og jafnframt þeim sem sáu sér fært um að taka þátt.

F.h Heilsueflandi samfélags,
Herdís I. Waage