Hagur í heimabyggð eða stuðningur við höfuðborgarsvæðið?

0
6713

Ég hef notið þeirra forréttinda undanfarin ár að koma á fót og starfa við eigið ferðaþjónustufyrirtæki á Hornafirði. Þetta var ein lykilforsenda þess að ég ásamt betri helmingnum ákvað að setjast að í heimabæ mínum, skjóta rótum í þessu öfluga samfélagi og sjá framtíðina fyrir okkur hér á Hornafirði. Við erum einungis eitt fjölmargra dæma um ungt fólk sem hefur ákveðið að flytjast á Hornafjörð vegna aukinna atvinnutækifæra undanfarin ár. Hér hefur verið mikill vöxtur og mörg spennandi störf hafa skapast í kringum ferðaþjónustuna. Það eru að minnsta kosti 20 fjölskyldur á Hornafirði sem hafa afkomu sína af rekstri afþreyingarfyrirtækja og fjöldi heilsársstöðugilda hjá þessum fyrirtækjum hlaupa á tugum. Hér er eingöngu verið að horfa í afþreyingarhlutann en ótalið öll þau störf sem tengjast gisti- og veitingageiranum.

Vöxtur í atvinnulífi og fjölgun íbúa ekki sjálfsagður hlutur

Allt bendir til að fjölgun íbúa í Sveitarfélaginu Hornafirði undanfarin misseri og blómstrandi atvinnulíf á svæðinu, sé afsprengi hins mikla vaxtar í ferðaþjónustu. Þessi vöxtur er ekki sjálfsagður hlutur og hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Því er mikilvægt að standa vörð um fyrirtækin sem byggja sína starfsemi í heimabyggð og tryggja þeim þær stoðir svo starfsemi fyrirtækjanna geti dafnað til lengri tíma og síðast en ekki síst, séu samkeppnishæf við stærri fyrirtæki í greininni á höfuðborgarsvæðinu. Það er okkar sem samfélags að standa vörð um þessa atvinnugrein og tryggja þannig stöðugleika í greininni til lengri tíma litið. Það hlýtur alltaf að vera hagur sveitarfélagsins að heimafyrirtæki dafni til framtíðar og að sem flest störf skapist í kringum þau og fleiri íbúar með búsetu á svæðinu. Margföldunaráhrifin eru svo mikil og heimafyrirtækin skilja meiri verðmæti eftir í héraði, til dæmis með því að kaupa hina ýmsu þjónustu af öðrum heimafyrirtækjum ásamt því að greiða útsvar til sveitarfélagsins.

Vatnajökulsþjóðgarður – ógn eða tækifæri?

Það virðist vera sem stóru afþreyingarfyrirtækin af höfuðborgarsvæðinu hafi meiri ítök innan Vatnajökulsþjóðgarðs og hafi þannig áhrif á ákvarðanir þjóðgarðsins. Þessi fyrirtæki eru mjög sterk markaðslega og fjárhagslega og virðast geta gert nánast það sem þeim sýnist. Í krafti þessara fyrirtækja, þá hefur þróunin verið sú að undanförnu, að ferðamenn velja frekar að koma í dagsferð inn á svæðið okkar eða hafa næturdvöl annars staðar á Suðurlandi. Þannig að þrátt fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem kemur inn á svæðið, þá skilja þeir mjög takmarkað eftir sig annað en sótspor. Jafnframt verður mun meiri ágengni á náttúruna okkar með þessum mikla massa og gæði náttúruupplifuninnar rýrnar.

Villta vestrið?

Til að átta sig á því hvernig hlutunum er háttað er Skaftafell hugsanlega eitt besta dæmið enda gjarnan kallað villta vestrið. Þar hafa eingöngu fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu fengið að vera með aðsetur nema eitt fyrirtæki héðan (matarvagn) og hefur heimamönnum ítrekað verið hafnað um aðsetur þar. Jafnframt hafa önnur stór fyrirtæki komið sér fyrir í Skaftafelli án þess að hafa leyfi til þess en fá engu að síður að starfa þar óáreitt. Ekkert er gert í málunum. Það mætti draga þá ályktun að virðing til Vatnajökulsþjóðgarðs sé ekki mikil og að þar ríki óstjórn. Það er algerlega óásættanlegt að svona stórt apparat geti starfað eins og það gerir. Það fer það orð af þjóðgarðinum að best sé að gera hlutina án þess að spyrja um leyfi, því þá fær maður að vera óáreittur með starfsemi sína. Nú geri ég ráð fyrir því að þeir sem hafa verið og eru í bæjarstjórn vilji fría sig frá þessu þar sem þetta sé á valdi þjóðgarðsins. Þar sem þrír fulltrúar sveitarfélagsins sitja ávallt í svæðisráði suðurhluta, þar af bæjarstjórinn, geta þessir aðilar ekki fríað sig frá ástandinu og umgjörðinni sem hefur skapast á þessu svæði þjóðgarðsins. Það virðist vera að fulltrúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði undanfarin ár hafi einfaldlega ekki haft bein í nefinu til að berjast fyrir sínu atvinnusvæði og sínu fólki. Heldur tilbúið að eyða ótrúlega miklum tíma og fjármunum í að bola í burtu öðrum heimafyrirtækjum og berjast með kjafti og klóm til að koma því í gegn þó dómskerfið sýni að það er ekki grundvöllur fyrir því. Þetta verður alltaf erfitt að skilja.

Fagleg umgjörð og samstaða tryggir gæði

Nú lítur út fyrir að það muni hægjast verulega á vexti í ferðaþjónustu á komandi árum og mun landsbyggðin finna mest fyrir því. Þess vegna er mikilvægt að við fáum fólk í sveitarstjórn sem er tilbúið að berjast fyrir okkar málstað, ekki bara fyrir mig eða mitt fyrirtæki, heldur fyrir allt sveitarfélagið. Við eigum að standa saman og finna leiðir til að byggja stoðir undir heimafyrirtækin og fá þjóðgarðinn til þess að róa með okkur þar. Enda þekkist það í mörgum löndum að umgjörð þjóðgarða er þannig háttað að það er gerð krafa að starfsemi þeirra byggist að stórum hluta á heimafyrirtækjum.
Vatnajökulsþjóðgarður er í senn mesta ógnin við starfsemi heimafyrirtækja í ferðaþjónustu en á sama tíma okkar mestu tækifæri. Því þarf fólk í sveitarstjórn sem er með bein í nefinu til að standa með heimamönnum og láta verkin tala, það er búið að ræða hlutina nóg.
Það felast einnig tækifæri í því að hægjast skuli á vexti. Við í Sveitarfélaginu Hornafirði erum í lykilstöðu til þess að vera framúrskarandi í ferðaþjónustu ef við hlúum að gæðum og að hvert öðru. Og síðast en ekki síst, sköpum þá umgjörð og stoðir sem þarf til að heimafyrirtækin geti dafnað og þar með Sveitarfélagið Hornafjörður með blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf.

Virðingarfyllst,
Sindri Ragnarsson, einn eigandi afþreyingarfyrirtækisins Glacier Trips
og Hornfirðingur í húð og hár.