Fuglar – listsýning í Nýheimum

0
1228

Guðrún Ingólfsdóttir opnar listsýningu á Bókasafninu í Nýheimum næstkomandi laugardag þann 4. maí. Tilurð þessarar sýningar er líf fuglanna og hvernig þeir minna okkur á breytileika lífsins og náttúrunnar. Sumir koma og fara og við köllum þá farfugla. Aðrir eru bara alltaf á svæðinu, staðfuglarnir okkar. Myndmál sýningarinnar er því hreyfanleikinn eins og hann birtist í lífi fuglsins. Sýningin mun þannig ferðast á milli og hafa stuttan stans á hverjum stað, rétt eins og krían sem sest á stein eða þröstur á grein. Myndin er samt áfram til staðar í huga okkar og minnir á sig rétt eins og fuglinn, en samt komin á nýjan stað.
received_409632879824867Sýningin kemur aðvífandi og hefur fyrstu viðkomu 4. maí á bókasafninu í Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Þar hefur hún viðstöðu til 9. maí. Þá tekur hún sig upp og sest inn á hjúkrunarheimilið Skjólgarð. Þar verður hún til 17. maí. Því næst sest hún á sundlaugarbakkann og verður opið í Sundlaug Horna­fjarðar frá 18. til 23. maí. Þá hefur hún sig á flug í síðasta sinn og tekur stefnuna á leikskólann Sjónarhól og dvelur þar frá 24. til 29. maí. Þar með lýkur farfluginu, í bili að minnsta kosti.
Sýningin verður opin á opnunartíma bókasafnins og í tilefni af viðkomu hennar þar býður Menningarmiðstöðin upp á kaffi og kleinur laugardaginn 4. mai kl. 13:00.
Við spurðum Gingó örfárra spurninga í tilefni af sýningu hennar.
Hvernig var ferlið fyrir sýninguna?
Ferlið byrjaði þegar ég sat í Toskanahéraði á Ítalíu síðasta sumar þar sem ég var að læra ákveðna aðferð við málun. Þar kom löngunin að nota þessa aðferð við að mála fugla og einhvern veginn komu þeir fljúgandi til mín einn af öðrum í vetur.
Hvernig datt þér í hug að láta sýninguna taka flugið?
Ég ákvað strax að myndirnar yrðu smámyndir. Þegar ég var hálfnuð sá ég að það var möguleiki fyrir mig að leyfa sýningunni að fljúga um eins og fuglarnir sem ég var búin að mála og að ég sem myndlistarkona hef oft hugsað það að færa fólkinu hér á staðnum myndlist sem annars kæmist ekki til að upplifa myndlist.
Mun sýningin jafnvel halda áfram að ferðast innanlands eða utan?
Það er aldrei að vita hvert hún fer eftir að hún hættir að flōögra um Höfn.
Hvaðan færðu innblástur?
Ég fæ minn innblástur mikið þegar ég ferðast um heiminn og landið okkar og ég skissa mikið á ferðalögum og tek myndir. Fer ávallt með sköpunar skapið með mér hvert sem ég fer.
Hvað er svo næst á dagskrá hjá þér?
Það er að fylgja sýningunni eftir og reyna að bæta mig tæknilega við þá myndlist sem ég stunda.

Hanna Dís Whitehead