Flöskuskeyti

0
4523
Hermann Bjarni og Gerða með flöskuskeytið

“Hermann Bjarni, sjáðu hérna er flöskuskeyti!” kallaði Hildigerður Skaftadóttir til okkar þar sem við vorum nýkomnir á ströndina. Gerða sýndi okkur glæra tequila-flösku, með sérkennilegum rauðum tappa. Inni í flöskunni var upprúllað bréf, fest saman með brjóstnælu með kanadíska fánanum. “Þú mátt eiga flöskuna Hermann,” sagði Gerða. Ekki þarf að orðlengja að dagurinn breyttist í einni hendingu í mikla fjársjóðsleit fyrir unga sem eldri.
Við fjölskyldan vorum á Breiðamerkursandi ásamt um 50 manns laugardaginn 16. september til þess að hreinsa strandlengjuna af rusli. Í grillveislu sem slegið var upp í lok dags var flöskuskeytið opnað og lesið. Í ljós kom að skeytið hafði verið sent sumarið 2013 og hafði því verið á volki í sjó í rúmlega fjögur ár. Í skeytinu voru ýmsar upplýsingar um sendandann og hvaðan skeytið hafði verið sent. Letrið var að hluta til ógreinilegt en samt mátti finna út að sendandinn heitir Jon Garth Swim frá Nova Scotia, sem er við Atlanshafsströnd Austur-Kanada.
Leitin að Jon Garth bar árangur og við komumst í samband við hann gegnum samfélagsmiðla. Í ljós kom að Jon Garth Swim hafði sent tvö skeyti, fyrst árið 2012 og svo þetta 2013. Hið fyrra er enn ófundið og er í wiský-flösku. Jon Garth setti þetta skeyti í sjóinn þegar hann var á siglingu með “Clipper Adventure”, þá staddur utan við strendur Skotlands. Seinna þetta sama ár fór hann einnig til Orkneyja, Færeyja, Íslands og Grænlands með sama skipi. Hann kom meira að segja hingað til Hafnar og fór hér í fyrsta sinn á hestbak.
Jon Garth Swim er frá Barrington í Nova Scotia í Kanada. Hann á móður sem er 92 ára. Hann er í hópi 7 systkina, á eina systur og tvo bræður á lífifi. Jon Garth er núna kominn á eftirlaun og býr einn í stóru húsi forfeðra sinna. Hann hefur unnið allskonar störf; sem steinsmiður, smiður, humarveiðimaður og síðast vann hann við að leggja símalínur. Hann hafði aldrei ferðast neitt fyrr en hann fór á eftirlaun fyrir 6 árum síðan. Jon Garth Swim var himinlifandi að frétta af því að skeytið hefði náð viðtakendum. Hann gaf góðfúslega leyfi til þess að við segðum frá þessu skemmtilega flöskuskeyti frá Kanada.

Sæmundur Helgason