Flöskuskeyti á Suðurfjörum

0
1694
Hylkið sem fannst á Suðurfjörum

Það kom margt í ljós í strandhreinsuninni laugardaginn 4. maí. Fyrir undirritaðar voru þó tvö flöskuskeyti sem fundust það markverðasta.
Fyrra flöskuskeytið fann Hildur Ósk og var það í glerflösku. Það var sent 1. janúar 2016 og var frá Helgu Kristeyju sem býr á Höfn. Það hefur því ekki farið langt en engu að síður mikilvægt að það fannst og sendandinn hefur verið látinn vita. Helga Kristey man ekki hvaðan hún sendi flöskuskeytið af stað.
Seinna flöskuskeytið var í plasthylki sem var lokað með plasttappa. Þegar hylkið var opnað var þar blár bréfmiði með ýmsum upplýsingum. Þessu hylki hafði verið varpað í sjóinn 31. ágúst 2018 og er hluti af vísindaverkefni sem kallast „OceanCurrentsTest“. Finnandi er beðinn um að senda upplýsingar um tíma og staðsetningu þegar skeytið fannst, og litinn og bókstafinn á blaðinu. Eftir smá leit á vefnum var hægt að finna ítarlegri upplýsingar um verkefnið en í ágúst 2018 voru sett plasthylki á þremur stöðum í sjóinn vestan við Svalbarða. Ætlunin er að safna saman upplýsingum um hafstrauma í Íshafinu og tengja við sjávarhita. Hver staður hafði sinn lit og eins var sjávarhiti þar mældur. Fyrsti staðurinn hafði bókstafinn A á rauðum lit og þar var sjávarhiti 7 °C. Svæði 2 hafði bókstafðinn B á gulum lit og þar var sjávarhiti 4,4 °C. Sjávarhiti á síðasta staðnum var -0,5°C og þau hylki höfðu bókstafinn C og voru blá eins og hylkið sem fannst á Suðurfjörunum. Á hverjum stað voru sett 300 hylki í sjóinn. Umsjónarmenn verkefnisins færa inn upplýsingar um fundarstaði hylkjanna eftir því sem að þær berast. Þeir hafa nú þegar svarað póstinum sem var sendur þegar hylkið á Suðurfjörunum fannst og þakkað fyrir upplýsingarnar. Í pósti þeirra kemur einnig fram að með verkefninu sé á tiltölulega ódýran máta hægt að sýna stefnu hafstrauma. Þannig hafa hingað til öll skeytin sem hafa fundist færst til suðurs frá Svalbarða.
Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá hylkið sem fannst á Suðurfjörunum og hins vegar hvar hylkin sem var varpað í sjóinn vestan við Svalbarða hafa fundist. Miðað við þann fjölda hylkja sem var settur í sjóinn hjá Svalbarða á síðasta ári er ekki ólíklegt að fleiri hylki eigi eftir að finnast við strendur Íslands.

Fundarstaður hylkjanna frá nóvember 2018 – 4. maí 2019.
Fundarstaður hylkjanna frá nóvember 2018 – 4. maí 2019.

Fyrir þá sem vilja er hægt að nálgast meiri upplýsingar um verkefnið á þessari slóð: https://www.facebook.com/eugeniusz.moczydlowski/posts/2392172790795972

Hildur Ósk Christensen og
Hjördís Skírnisdóttir
finnendur flöskuskeytanna