Félagslandbúnaður í Hornafirði

0
1647
Mynd frá Gróanda á Ísafirði

Mánudaginn síðastliðinn var haldinn áhugaverður kynningarfundur um félags­landbúnað. Fundurinn var haldin í Nýheimum við mikinn áhuga viðstaddra. Eftir stutta útskýringu á hugmyndafræði félagslandbúnaðar (e. Community supported agriculture / CSA) fengu fundargestir kynningu frá Hildi Dagbjörtu Arnardóttur hjá Gróanda á Ísafirði. Gróandi er sjálfstætt ræktunarfélag sem hefur þann eina tilgang að rækta grænmeti fyrir félagsmenn sína án hagnaðar og er fyrsti félagslandbúnaðurinn sem stofnaður hefur verið á Íslandi. Félagið innheimtir félagsgjöld árlega sem fer m.a. í að greiða fyrir starfsmann félagsins sem hefur yfirumsjón með ræktuninni. Um 50 félagsmenn eru nú í Gróanda og taka félagar allar ákvarðanir í sameiningu s.s. hvað skuli rækta, hvert árgjaldið er og svo framvegis. Á uppskerutíma geta félagar sótt sér grænmeti vikulega. Reglulega eru haldnir viðburðir, s.s. grill, kvöldvaka, sjálfboðaliðadagar og að sjálfsögðu að endingu uppskeruhátíð.
Margar leiðir má fara í þessum málum. Víða erlendis er verkefnið þannig uppbyggt að bóndi á svæðinu ákveður sjálfur, eða í samráði við aðra, um að fara þessa leið í sölu á sinni matvöru. Leitað er til nærsamfélagsins að fólki sem vill verða áskrifandi að grænmeti, ræktað í héraði. Ýmsir kostir eru fyrir bóndann, en með því að fá félaga til að greiða fyrir grænmetið fyrirfram tryggir bóndinn sér örugga sölu á afurðum sínum, betra verð fyrir vöruna (þarf ekki að undirbjóða á stórmarkaði), bóndinn getur framleitt eftir þörfum og félagarnir deila áhættu ef uppskerubrestur verður.
Einnig geta veitingastaðir og fyrirtæki tekið þátt og þannig geta þeir boðið gestum sínum eða starfsfólki uppá ferskt grænmeti eða matvöru ræktaða í heimabyggð.
Hvora leiðina sem farið er, þ.e.a.s íbúar stofna félag sem ræður starfsmann eða bóndi á svæðinu semur við íbúa, er ávinningurinn mikill. Neytendur vita hvaðan maturinn er fenginn, grænmetið er umbúðalaust, stuðlað er að minni matarsóun og einnig sparast flutningur á matvælum. Samfélagslegir ávinningar eru einnig til staðar, verkefnið eflir nærsamfélagið, það er fræðandi, eflir vitund íbúa á hvaðan maturinn er komin og er mjög fjölskylduvænt þar sem allir geta tekið virkan þátt.
Tilgangurinn með fundinum var að kanna áhuga íbúa á Hornafirði að fara af stað í slíkt verkefni hér á svæðinu. En verkefnið stendur og fellur með áhuga íbúa. Mæting hefði mátt vera meiri á fyrsta fundinn, en undirrituð fann fyrir áhuga íbúa áður en að fundinum kom og margir höfðu líst yfir áhuga á að fara af stað með slíkt verkefni.
Ákveðið var í lok fundar að stofna facebook síðu og hefja þar umræðu um hvort og þá hvernig væri hægt að drífa af stað slíkt verkefni í Hornafirði. Áhugasamir geta leitað eftir hópnum „Félagslandbúnaður í Hornafirði“ á Facebook.

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir
Verkefnastjóri Umhverfis-Suðurland
Nýheimum þekkingarsetri