Ég elska að búa í Suðursveit!

0
1509

Þetta orðalag nota drengirnir okkar oft um eitthvað sem þeim þykir gott, fallegt eða líður vel með. En það er samt satt, ég elska sveitina mína og þar vil ég búa og ala upp drengina okkar. Sem betur fer eru fleiri sem vilja hér búa og ala upp sín börn, en það eru færri sem láta þann draum rætast vegna langra vegalengda í alla þjónustu. Sem dæmi fer elsti drengurinn okkar af stað alla virka daga kl. 7 á morgnana í skólann (hann er vaknaður a.m.k 30 mín. fyrr) og er komin heim aftur kl. 15:30, sem er 8,5 klst vinnudagur hjá 6 ára barni! Af þessum 8,5 klst situr hann 2 klst í bíl og þræðir afleggjarana 2x á dag hjá skólafélögum sínum. Það sjá allir að það er mikið lagt á börnin okkar og er það því í okkar verkahring að ýta á eftir styttingu vegalengda innan sveitarfélagsins eins og hægt er.
Við getum fagnað því að loksins er hafin vinna við lagningu nýs vegar og brúa yfir Hornafjarðarfljót. Þetta er mikil samgöngubót fyrir alla íbúa sveitarfélagsins og eykur samgang á milli þéttbýlis og sveitar. Það er mjög mikilvægt sérstaklega í ljósi þess að uppgangur í atvinnulífinu hefur verið hraður í sveitunum á síðastliðinum árum.
Okkur sveitafólkinu vantar eins og Hafnarbúum íbúðir fyrir starfsfólkið okkar og varanlega lausn á dagforeldramálum sem og leikskóla- og skólamálum. Búið er að deiliskipuleggja nokkrar lóðir í landi Holts á Mýrum og eru þær tilbúnar fyrir þá sem vilja byggja. Skipulag á Hrollaugsstöðum hefur dregist, en vonandi tekst okkur að koma því í gegn á næsta kjörtímabili. Það er mikilvægt að hafa svona kjarna í hverri sveit þar sem hægt er að byggja íbúðir fyrir starfsfólk sem vill setjast hér að í einhvern tíma og tengjast inn í samfélagið. Í svona kjarna gæti dagforeldri starfað og þegar börnin hafa náð 4 ára aldri mundu þau fara með skólabílnum til Hafnar í leikskóla 2-3x í viku. Það er mjög mikilvægt fyrir börnin að taka síðustu 2 árin í leikskóla til að kynnast krökkunum sem þau eiga eftir að vera með í skóla í 10 ár. Það þekki ég af eigin reynslu hve mikilvægt það er þegar á þarf að halda að barnið manns getur farið til vinar og þarf því ekki að sleppa viðburðum sem það vill mæta á. Til að þetta gangi upp þarf að breyta útboði skólakeyrslunnar svo að öll 4 og 5 ára börn í sveitunum hafi tryggt sæti í skólabílnum.
Einnig þurfum við að huga að börnunum okkar sem eru 16-18 ára og sækja framhaldsskóla á Höfn. Þau hafa ekki bílpróf fyrsta árið a.m.k og samkvæmt skilgreiningunni eru þau börn fram að 18 ára. Því verðum við sem sveitarfélag að tryggja þeim sæti í skólabílnum svo að þau sitji við sama borð og jafnaldrar þeirra á Höfn. Ég veit að bæði framhaldsskólabörn og leikskólabörn hafa fengið að fara með skólabílnum undanfarin ár, en það byggist allt á því að það séu laus sæti fyrir þau og er eingöngu fyrir góðvild bílstjórana en það á ekki að vera þannig.
Við í 3.framboðinu viljum horfa á allt sveitarfélagið sem eina heild, bæði m.t.t atvinnu og þjónustu. Þannig verðum við sterkara samfélag.

Þórey Bjarnadóttir
8.sæti á lista 3.framboðsins