Barnastarf Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar

0
928

Hefð er fyrir því að Menningar­miðstöð Hornafjarðar standi fyrir fræðslu og skemmtiferðum fyrir börn frá sjö ára aldri. Í sumar var þar engin breyting á og voru farnar 10 ferðir.
Ferðirnar tókust allar mjög vel og vorum við mjög heppin með veður í sumar. Börnin stóðu sig öll með prýði og hafa greinilega áhuga á umhverfi sínu.
Við skoðuðum nærumhverfið og fræddumst um náttúruna, fórum í bátsferð út í Mikley, veiðiferð í Þveitina og heimsóttum Flatey og Lækjarhús. Björn G. Arnarson og Steinunn Hödd Harðardóttir fóru með börnin út í Ósland og sögðu þeim frá lífríkinu og lífsháttum fugla og saman tókst þeim að gera alla mjög áhugasama. Steinunn Hödd starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs fór með okkur í ferð um þjóðgarðinn og sýndi áhugasömum börnum lífríkið í nágrenni Hoffellsjökuls. Lúruveiðin með Jóni Þorbirni var vinsæl að vanda og voru farnar 3 ferðir þann daginn. Ágætis afli var í öllum ferðunum. Óvissuferðin tókst mjög vel þar sem farið var í fundarhúsið í Lóni þar gæddu börnin sér á pylsum og svala en vegna veðurs var ekki grillað úti eins og skipulagt hafði verið að gera og var því slegið upp veislu inni. Farið var í ýmsa leiki og fengu myndlistarhæfileikar barnanna að njóta sín.
Starfsfólk Menningar­miðstöðvar Hornafjarðar þakkar öllum þeim sem tóku þátt í ferðunum og öllum þeim sem lögðu lið. Svona starf getur ekki gengið nema með velvilja samfélagsins og hans njótum við svo sannarlega
Sérstakar þakkir fá:
Fallastakkur ehf., starfsmenn Flateyjar, Björn Arnarson, Steinunn Hödd Harðardóttir, Jón Þorbjörn Ágústsson, Snæbjörg Guðmundsdóttir, starfsmenn Hafnarinnar og bílstjórar.
Hlökkum til að sjá sem flesta með okkur á næsta ári.

Starfsfólk Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.