Balkan kvöld á Hafinu

0
1659

Laugardaginn 8. desember buðu íbúar Hafnar frá Balkanskaganum öllum íbúum sveitarfélagsins í partý á Hafið. Nikolina Tintor ein af skipuleggjendunum segir að með viðburðinum hafi þau viljað skapa vettvang fyrir íbúa til að hittast og leyfa fólki að upplifa skemmtun með tónlist frá Balkanskaganum. Hún segir viðburðinn hafa tekist ótrúlega vel og vonum framar, mætingin hafi verið góð og skemmtunin farið vel fram. Þarna hafi gamlir og nýir Hornfirðingar átt góða stund saman og sýnt það og sannað að hér er pláss og áhugi fyrir menningu annarra landa. Nikolina segir svona viðburði ekki bara byggja brú milli menningarheima heldur styrki þeir einnig tengsl íbúa frá Balkanskaganum en mörg þeirra vinni mikið og hittist því allt of sjaldan sem hópur. Eva Birgisdóttir framkvæmdastjóri á Hafinu tekur í sama streng og segir að kvöldið hafa verið ákaflega vel heppnað. Mætingin hafi farið fram úr björtustu vonum og skemmtunin staðið yfir langt fram á nótt. Sumir gestanna hafi verið svolítið hissa á tónlistinni þegar þeir mættu en ekki látið það stoppa sig í að taka snúning á dansgólfinu og skemmta sér með íbúunum okkar frá löndum fyrrum Júgóslavíu.

Hildur Ýr Ómarsdóttir
Verkefnastjóri fjölmenningarmála