Áhugi fólks á íþróttum kviknar í bogfimi

0
1399

„Áhugi á bogfimi hefur aukist mikið á landsvísu á síðustu sex árum. Hann er orðinn gríðarlegur. Ég hef haldið námskeið í bogfimi og kynningar um allt land. Á sumum stöðum sem ég hef komið til hefur fólk byrjað að æfa greinina,“ segir Indriði Ragnar Grétarsson, bogfimi- og bogveiðisérfræðingur. Hann er sérgreinastjóri í bogfimi, einni af þeim 20 greinum sem í boði eru á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Indriði er þessa dagana að kanna áhugann á námskeiði í aðdraganda mótsins fyrir þátttakendur á Höfn í Hornafirði. 

Þurfa ekki að eiga boga

Unglingalandsmótið hefst fimmtudaginn 1. ágúst og verður keppt í bogfimi eftir hádegið á laugardeginum. Tveir flokkar eru í boði. Annars vegar opinn aldurs- og kynjaflokkur þar sem strákar og stelpur 11-14 ára taka saman þátt og 15-18 ára líka. Þátttakendur í opna flokkinum þurfa ekki að koma með eigin boga. Á hinn bóginn er líka lokaður flokkur fyrir jafn gamla keppendur. Þáttakendur í þeim flokki þurfa að koma með eigin boga.  
Indriði byrjaði sjálfur að dúlla sér við bogfimi árið 2007 í gamni. Hann gekk í Skotfélagið Ósman í Skagafirði til að kaupa sér boga eins og vopnalög kveða á um. Áhuginn jókst og hann keypti sér fleiri boga. Ekki leið á löngu þar til Indriði var kominn með hlutverk hjá Skotfélaginu en hann tók á móti hópum fólks sem vildi læra meira um bogfimi af öllu landinu.
Hann vildi gera meira og fór svo að hann stofnaði bogfimideild innan Tindastóls árið 2013. Hann hefur síðan þá verið í forsvari fyrir deildina, verið ötull málsvari bogfimi á landsvísu og farið á þjálfaranámskeið bæði hér heima, í Rúmeníu og víðar.
Indriði segir börn og ungmenni hafa mikinn áhuga á bogfimi:
„Iðkendur hafa komið og farið. Fyrir því geta auðvitað verið margar ástæður. Við tökum helst eftir því í bogfimideild Tindastóls og reyndar víðar að krakkar sem koma til okkar eru þeir sem finna sig ekki í öðrum greinum eins og boltaíþróttum og frjálsum,“ segir hann. 

Indriði Ragnar Grétarsson

Margir vilja keppa í bogfimi!

Keppt var í bogfimi í fyrsta sinn í bogfimi á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki árið 2014. Indriði hélt um alla hnúta í greininni þar.
„Þarna skráðu sig rétt um 12 til leiks. Á Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn í fyrra voru þátttakendur orðnir 68! Það er mikil fjölgun á aðeins fjórum árum! Mér var sagt að þetta hafi verið ein fjölmennasta einstaklingsgreinin. Þarna var ég sérgreinastjóri og var beðinn um að taka það aftur að mér á Unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði.

Íþróttir og tónlist alla helgina

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. 
Mótið er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára sem vilja reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Samhliða því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna og alla aldurshópa. Þátttökugjald er 7.500 krónur. Fyrir það getur viðkomandi skráð sig í eins margar greinar og hann eða hún vill. Inni í gjaldinu er aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna og öll önnur afþreying á mótinu.

Mikil gleði og margar greinar

Þátttakendur á Unglinga­landsmóti UMFÍ þurfa hvorki að vera skráðir í ungmenna- né íþróttafélag. Ef viðkomandi vill taka þátt í hópíþrótt, knattspyrnu, körfubolta eða annarri grein en er ekki í liði þá er hann eða hún sett í lið með jafnöldrum sínum víða að af landinu. Með þessu móti er mótið vettvangur nýrra kynna og gleði þar sem allir hafa kost á að njóta þess að taka þátt í íþróttum og hreyfingu.
Á mótinu er boðið upp á keppni í fjölmörgum greinum. Þær eru biathlon, sem margir þekkja sem hlaupaskotfimi, bogfimi, fimleikalíf og fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, íþróttir fatlaðra, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur. 
Í hverju ætlar þú og fjölskylda þín að taka þátt?  
Alla dagskrána er hægt að sjá á vefsíðunni www.ulm.is.