ADVENT í Finnlandi

0
1470

Eins og áður hefur komið fram í síðum Eystrahorns þá er Adventure tourism in vocational education and training (ADVENT) menntaverkefni sem FAS leiðir. Auk FAS eru þátttakendur í verkefninu Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetur Hí og skólar, rannsóknarstofnanir og ferðaþjónustuklasar í Skotlandi og Finnlandi. Verkefnið er styrkt af menntaáætlun Evrópusambandsins Erasmus+.
Dagana 12. – 16 nóvember sl. héldu þau Sigurður Ragnarsson kennari fjallamennskunámsins í FAS, Brynja Sóley Plaggenborg nemandi í fjallamennskunámi skólans og Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT, til þátttöku í öðru námskeiði verkefnisins. Ferðinni var heitið til Kuusamo í norðaustur Finnlandi en sá bær er í nágrenni við Ruka sem er risavaxið skíðasvæði og eitt það vinsælasta í Evrópu, enda er þar að meðaltali hægt að renna sér á skíðum í 200 daga á ári. Svæðið heimsækja um milljón gestir á ári hverju til að stunda þar fjölbreytta vetrar afþreyingarferðamennsku.
Námskeiðið var tilraunanámskeið númer tvö eins og áður segir, eitt af níu, sem prufukeyrt verður í ADVENT verkefninu. Verkmenntaskólinn í Kuusamo vann að þessu námskeiði sem snérist um staðarþekkingu og hvernig þjálfa má starfandi ferðaþjónustuaðila og nemendur í ferðamála- og útivistarnámi í að nýta slíka þekkingu í störfum sínum.
Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar frá Skotlandi, tveir frá Finnlandi auk 10 nemenda verkmenntaskólans í Kuusamo (KAO) þátttakendur í námskeiðinu. Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu hægt að keyra í öðrum löndum, með svipuðum áherslum nema lagað að hverju svæði fyrir sig.
Námskeiðið stóð í fimm daga og samanstóð af margvíslegri fræðslu um ferðamennsku, náttúru og sögusvæðisins auk fjölbreyttra heimsókna. Glæsileg móttökuathöfn var í svokölluðu „Wilderness lodge“ út í skógi sem var glæsilegur viðarskáli sem nýttur er fyrir veislur. Þar fékk hópurinn fróðlega kynningu á svæðinu og góðan mat sem nemendur á matreiðslubraut verkmenntaskólans höfðu útbúið fyrir þátttakendur.
Meðal þess sem skoðað var í vettvangsferðum var Husky hundabúgarður. Þar eru um 150 hundar sem notaðir eru í hundasleðaferðir með ferðamenn á veturna. Hreindýrabúgarður var heimsóttur, en þar hefur verið stundaður búskapur af sömu fjölskyldu í um 150 ár. Auk þess að stunda búskap er ferðamönnum boðið upp á hinar ýmsu ferðir, á veturna eru það mestmegnis sleðaferðir þar sem hreindýr draga sleðann og á sumrin bjóða þeir fólki m.a. að koma að vinna með sér í búskapnum part úr degi eða allt upp í eina viku. Skíðasvæðið í Ruka var heimsótt og einn af fimm þjóðgörðum í nágrenni Kuusamo, Oluanka þjóðgarðurinn var heimsóttur. Fyrirtæki sem býður fólki m.a. að fara í 3 mismunandi tegundir af alvöru finnsku gufubaði var heimsótt. Gufubað er alls ekki það sama og gufubað í Finnlandi, en þess má geta að um 330.000 gufuböð eru skráð í Finnlandi en einungis um 270.000 bílar. Hópurinn fékk ítarlega kynningu á gufubaðsmenningunni og leiðsögn í gufubaðinu sjálfu. Að því loknu borðaði hópurinn svo heimagerðan mat, eldaðan úr staðbundnu hráefni sem ábúendur höfðu aflað í nágrenni bæjarins.
Þriðja námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið á Íslandi í janúar og þá stendur til að prufukeyra námskeið um íshella og jöklaferðir. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu

Fyrir hönd ADVENT- teymisins
Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri